Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo er langtekjuhæsti íþróttamaður heims í dag.
Þetta kom fram í nýrri úttekt bandaríska fjármálamiðilsins Forbes en Ronaldo þénaði í kringum 275 milljónir bandaríkjadala á undanförnum tólf mánuðum.
Það samsvarar um 35,6 milljörðum íslenskra króna en til að setja hlutina í samhengi er talið að heildartekjur ríkisins af sölunni á Íslandsbanka verði rúmlega 90 milljarðar íslenskra króna.
Portúgalski knattspyrnumaðurinn hefði því getað keypt tæplega 40 prósent hlut ríkisins í bankanum, bara með tekjunum sem hann þénaði á síðustu mánuðum.
Körfuboltamaðurinn Stephen Curry, leikmaður Golden Sate Warriors, er í öðru sæti listans en hann þénaði 156 milljónir dollara.
Hnefaleikakappinn Tyson Fury er í þriðja sætinu með 146 milljónir dala og Dak Prescott, leikstjórnandi Dallas Cowboys í bandarísku NFL-deildinni, þénaði 137 milljónir dala.
Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi er í fimmta sætinu með 135 milljónir dala og LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, er í því sjötta með 133,8 milljónir dala.