Óreiða í B-deildinni og Birkir gæti fallið

Birkir Bjarnason og félagar gætu fallið úr B-deildinni.
Birkir Bjarnason og félagar gætu fallið úr B-deildinni. Ljósmynd/Brescia

Hinu fornfræga ítalska knattspyrnuliði Sampdoria gæti verið bjargað frá falli niður í ítölsku C-deildina eftir að fregnir bárust af því að ítalska deildakeppnin hyggist draga fjögur stig af Brescia, sem Birkir Bjarnason leikur með, í B-deildinni.

Ítalski miðillinn La Gazzetta Dello Sport greinir frá því að stigin verði dregin af Brescia, sem hafnaði í 15. sæti B-deildarinnar, vegna vangoldinna launa leikmanna í febrúar á þessu ári.

Verði það raunin fellur Brescia beint niður í C-deild en Sampdoria fær tækifæri til þess að halda sæti sínu í umspili.

Sampdoria féll úr B-deildinni með því að fá 41 stig og hafna í 18. sæti. Liðin í 18. - 20. sæti falla beint niður í C-deild en liðið í 17. sæti fer í umspil við liðið í 16. sæti skilji fjögur stig eða minna á milli þeirra, sem er tilfellið í ár.

Umspilsleikjum frestað

Vegnar þeirrar óvissu sem nú er komin upp hefur fyrirætluðum umspilsleikjum Frosinone sem hafnaði í 16. sæti og Salernitana sem hafnaði í 17. sæti um að halda sæti sínu í B-deild verið frestað.

Fari svo að stigin fjögur verði tekin af Brescia færist liðið niður í 18. sæti og fellur beint niður í C-deild. Við það færist Sampdoria upp í 17. sæti og Salernitana í 16. sæti.

Umspilsviðureignin yrði þá á milli Sampdoria og Salernitana. Á meðan færi Frosinone upp í 15. sæti og yrði þá skyndilega búið að bjarga sæti sínu og þyrfti ekki að hafa áhyggjur af umspilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka