Ungstirnið tekur við sögufrægri treyju

Lamine Yamal hefur leikið í treyju númer 19 á tímabilinu, …
Lamine Yamal hefur leikið í treyju númer 19 á tímabilinu, sem var einmitt treyjan sem Lionel Messi lék í áður en hann tók við treyju númer 10. AFP/Manaure Quintero

Spænski knattspyrnumaðurinn Lamine Yamal mun frá og með næsta tímabili leika í keppnistreyju númer 10 hjá Spánarmeisturum Barcelona.

Yamal tekur við treyjunúmerinu af Ansu Fati en þar á undan hafði goðsögnin Lionel Messi leikið um langt árabil fyrir Barcelona með tíuna á bakinu.

Ronaldinho og Rivaldo höfðu svo borið númerið á bakinu áður en Messi tók við því og því er ljóst að Yamal, sem er enn einungis 17 ára gamall, fetar í fótspor magnaðra leikmanna í sögu Barcelona.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið algjör lykilmaður Barcelona og Evrópumeistara Spánar undanfarin tvö tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert