Króatíski knattspyrnumaðurinn Luka Modric, goðsögn hjá Real Madríd, mun yfirgefa félagið í sumar að loknu HM félagsliða í Bandaríkjunum.
„Stundin er runnin upp. Stundin sem ég vildi að myndi aldrei ganga í garð en þannig er fótboltinn og í lífinu á allt sér upphaf og endi.
Ég er stoltur að hafa verið hluti af einu sigursælasta skeiði besta félags sögunnar,“ skrifaði Modric meðal annars á Instagram-aðgangi sínum.
Modric, sem er 39 ára, hefur leikið með Real Madríd frá árinu 2012 og verið einstaklega sigursæll hjá félaginu.
Alls hefur hann unnið 28 bikara með Madrídingum, þar af Meistaradeild Evrópu sex sinnum, spænsku deildina fjórum sinnum og spænska konungsbikarinn tvisvar.