Elversberg á góða möguleika á að komast í fyrsta skipti í efstu deild karla í þýska fótboltanum eftir jafntefli á útivelli, 2:2, í fyrri umspilsleiknum gegn Heidenheim í kvöld.
Heidenheim hafnaði í þriðja neðsta sæti Bundeslígunnar, þýsku 1. deildarinnar, en Elversberg náði sínum besta árangri í sögunni með því að enda í þriðja sæti B-deildarinnar.
Elversberg fær nú tækifæri í seinni leiknum á heimavelli til að fullkomna ævintýrið.
Staðan var enn vænlegri í hálfleik þegar Elversberg var yfir, 2:0, eftir að Lukas Petkov og Fisnik Asllani skoruðu. Tim Siersleben og Matthias Honsak svöruðu fyrir Heidenheim um miðjan síðari hálfleik og lokatölur urðu því 2:2.
Elversberg hefur alla tíð leikið í neðri deildum Þýskalands, alla þessa öld til skiptis í C- eða D-deild, þar til félagið komst í fyrsta skipti upp í B-deildina vorið 2023. Það hefur nú tekið við af Saarbrücken sem besta fótboltalið fylkisins Saarlands.
Seinni leikurinn fer fram í Spiesen-Elversberg á mánudagskvöldið en það er 13 þúsund manna bær skammt frá landamærunum við Frakkland og Lúxemborg.