Grímsi: „Er mikill Sigtryggs Arnars maður“

Hallgrímur Mar Steingrímsson að fagna í dag.
Hallgrímur Mar Steingrímsson að fagna í dag. mbl.is/ Þórir Tryggvason
Einu sinni sem oftar var það Hallgrímur Mar Steingrímsson sem gerði gæfumuninn fyrir KA-menn á knattspyrnuvellinum. KA tók í dag á móti Aftureldingu í heldur lokuðum leik sem fór 1:0. Var það Hallgrímur sem skoraði eina markið þegar hann þrumaði boltanum með vinstri fótar skoti upp í skeytin á marki Aftureldingar.
Grímsi var spurður um markið í viðtali eftir leik.
„Þetta var ágætt og gaman að sjá boltann inni. Það var mikið að maður gerði eitthvað. Við vorum að landa mikilvægum þremur stigum í dag.“
Það virtist vera uppleggið hjá Aftureldingu að spila þéttan varnarleik og í það minnsta halda markinu hreinu. Það var erfitt að finna glufur á góðu skipulagi þeirra.
„Mér finnst þeir vera með mjög gott lið. Þegar þeir ná að halda í boltann þá gera þeir það vel. Þeir eru líka þéttir til baka en líka hættulegir í skyndisóknum. Þetta var þolinmæðisverk. Það þurfti langskot í dag til að brjóta þá á bak aftur.“
Þið fenguð aragrúa af hornum en þau nýttust ekki neitt. Það var nú oft flautað á eitthvað þegar boltinn barst inn í teiginn.
„Það vantaði alltaf smá upp á að gera eitthvað úr hornunum.“
Þetta var lífsnauðsynlegt fyrir ykkur og sálartetrið að ná sigri í dag. Þið sátuð einir í botnsætinu fyrir leik.
„Í síðustu tveimur leikjum þá höfum við haldið hreinu. Við náðum í gott stig í Vestmannaeyjum á erfiðu grasi í síðustu umferð og þrjú stig í dag. Við verðum að byggja ofan á þetta og ná í fleiri stig í næstu leikjum. Nú er stutt á milli leikja. Við spilum við Fram á fimmtudaginn og svo Stjörnuna heima næsta sunnudag.“
Haddi þjálfari talaði um það eftir ÍBV-leikinn að taka lítil skref til að bæta leik ykkar. Nú þurfið þið að fara að skora meira þótt 1:0-sigrar gefi alltaf þrjú stig.
„Þetta er vonandi að smella. Við höfum lagt áherslu á varnarleikinn núna og vonandi fer sóknarleikurinn að styrkjast aftur. Reyndar fannst mér að við hefðum getað skorað fleiri mörk. Við áttum tvær tilraunir sem fóru í stöngina og eitthvað í viðbót. Með aðeins betri gæðum þá hefðum við getað skorað meira. Ég væri til í að vinna alla leiki 1:0 til að fá öll stigin sem boðið er upp á.“
Hallgrímur Mar var að lokum spurður um ást hans á körfuboltaliði Tindastóls. Hann vantaði sárlega í Síkið síðasta miðvikudag þegar Íslandsmeistaratitillinn rann úr greipum Stólanna.
„Ég vil helst ekki vera að tala um það. Ég er ennþá í sárum yfir því að Tindastóll hafi tapað þessum leik. Við tökum þetta bara á næsta ári. Ég segi við fyrir hönd Norðlendinga. Ég er líka hálfgerður Króksari. Ég er mikill Sigtryggs Arnars maður og reyni að fara á alla leiki sem ég kemst á. Ég hef stundum brunað beint eftir æfingu. Ég veit ekki hvort konan sé alveg sátt með mig með tvö börn heima þegar ég fer alltaf á Krókinn. Maður getur ekki sleppt þessu,“ sagði léttur Hallgrímur Mar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert