Óvíst er hvað tekur við hjá íslenska knattspyrnumanninum Alberti Guðmundssyni en hann lék með Fiorentina á láni frá Genoa á nýliðnu keppnistímabili.
Albert, sem er 27 ára gamall, kom við sögu í 24 leikjum með Fiorentina í ítölsku A-deildinni á tímabilinu þar sem hann skoraði sex mörk og lagði upp tvö til viðbótar en alls lék hann 33 leiki í öllum keppnum og skoraði í þeim átta mörk.
Fiorentina borgaði átta milljónir evra fyrir það að fá Albert á láni og þarf að borga 20 milljónir til viðbótar til þess að kaupa hann alfarið af Genoa.
Forráðamenn Fiorentina hafa ekki ennþá tekið ákvörðun um það hvort þeir ætli sér að kaupa Albert alfarið til félagsins en Marco Ottolini, yfirmaður knattspyrnumála hjá Genoa, tjáði sig um stöðu hans á dögunum.
„Það er áhugi á Alberti, meðal annars frá liðum sem munu leika í Meistaradeildinni á næstu leiktíð,“ sagði Ottolini í samtali við ítalska miðilinn Scelo XIX.
„Það er heldur ekki útilokað að hann snúi aftur til Genoa og leiki með liðinu á komandi keppnistímabili,“ bætti Ottolini við.