Knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku, Concacaf, hefur hafnað umsókn knattspyrnusambands Grænlands um aðild.
Grænland, sem tilheyrir landfræðilega Norður-Ameríku en er hluti af Danmörku, hefur aldrei spilað keppnisleik í sögunni en karlalandsliðið spilar inn á milli óformlega vináttuleiki.
Grænland getur ekki verið hluti af Knattspyrnusambandi Evrópu þar sem það er ekki viðurkennt af Sameinuðu þjóðunum.
Slík krafa er ekki gerð hjá Concacaf og því freistaði grænlenska sambandið þess að sækja um þar. Umsókninni var hins vegar hafnað á fundi Concacaf um helgina.