Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Ronnie Stam, sem varð enskur bikarmeistari með Wigan árið 2013, gæti átt yfir höfði sér 13 ára fangelsisdóm fyrir stórfellt eiturlyfjasmygl.
Stam, sem er fertugur, var handtekinn í júní á síðasta ári grunaður um að hafa í slagtogi við bróður sinn Rudi smyglað inn samtals tveimur tonnum af kókaíni frá Suður-Ameríku til heimalandsins Hollands.
Götuvirði slíks magns af kókaíni er um 48 milljónir punda, jafnvirði 8,1 milljarðs íslenskra króna.
Ronnie hefur verið í gæsluvarðhaldi allar götur síðan en Rudi var sleppt úr haldi stuttu eftir handtöku fyrir ári síðan.
Bræðurnir mættu fyrir rétt í Breda í Hollandi á þriðjudag þar sem saksóknarar lögðu fram dulkóðuð símtöl milli bræðranna sem sönnunargögn.
Símtölin eru sögð sýna fram á skipulagningu þeirra á eiturlyfjasmygli auk þess sem bræðurnir eru sagðir hafa sent ljósmyndir af kókaíni sín á milli.
Saksóknari fer fram á 13 ára fangelsisvist yfir Ronnie, sem spilaði 62 leiki fyrir Wigan í ensku úrvalsdeildinni, og að hann verði sektaður um 1,44 milljónir punda, 245 milljónir íslenskra króna.
Þá er farið fram á sex ára fangelsisvist yfir Rudi og að hann greiði sömu upphæð í sekt.