Gagnrýninn á Heimi

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Ljosmynd/Írska knattspyrnusambandiö

Gary Breen, fyrrverandi landsliðsmaður Írlands, var gagnrýninn á Heimi Hallgrímsson þjálfara írska karlalandsliðsins eftir markalaust jafntefli gegn Lúxemborg í vináttuleik á þriðjudaginn.

„Oft í fótbolta gefa tíu leikir þér góða mynd um hvar þú ert staddur. Þetta var tíundi leikur Heimis og hann virkaði eins og skref aftur á bak frá leiknum við Senegal,“ sagði Breen í hlaðvarpinu Indo Sport.

„Þetta hefur látið mig halda að við séum ekki komin eins langt og við höldum,“ bætti Breen við.

Írland lék tvo vináttuleiki í landsleikjaglugganum en liðið skildi jafnt við Senegal, 1:1, í fyrri leiknum.

„Mér finnst við eiga mikið verk fyrir höndum. Vegna leikkerfisins sem við notum tel ég að við eigum að vera komin lengra áleiðis,“ sagði Breen.

Heimir tók við írska landsliðinu fyrir rúmu ári síðan. Í fyrstu 10 leikjunum sem þjálfari hefur Írland unnið fjóra leiki, gert tvö jafntefli og tapað fjórum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert