Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba er í viðræðum við Mónakó um að snúa aftur á völlinn með liðinu úr furstadæminu.
Pogba hefur ekki spilað opinberan leik síðan í september 2023 þegar hann var úrskurðaður í fjögurra ára keppnisbann vegna meintrar notkunar ólöglegra lyfja.
Bannið var lækkað niður í 18 mánuði og hann getur því byrjað að spila á ný á næsta keppnistímabili.
Samningi Pogba við Juventus var rift í nóvember 2024. Samkvæmt Sky Sports er búist við því að hann semji til tveggja ára við Mónakó sem endaði í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar og vann sér með því keppisrétt í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu næsta vetur.
Pogba er 32 ára gamall og lék með Juventus 2012-2016 og aftur 2022-2024 en með Manchester United 2009-2012 og 2016-2022.
Hann varð heimsmeistari með Frökkum árið 2018 og hefur spilað 91 landsleik og Sky Sports segir að samkvæmt heimildum stefni hann á að komast í franska landsliðið fyrir HM 2026. Hann gæti því mögulega mætt Íslandi sem leikur tvisvar við Frakkland í haust í undankeppni HM.
Pogba hefur fjórum sinnum orðið ítalskur meistari með Juventus, og tvisvar bikarmeistari, og vann Evrópudeildina með Manchester United árið 2017.