Áhugamannalið keppir á HM

Auckland City mætir Bayern München á morgun.
Auckland City mætir Bayern München á morgun. Ljósmynd/Auckland City

Heimsmeistaramót félagsliða fer af stað í Bandaríkjunum í nótt með leik Inter Miami og Al Ahly. Mótið fer fram með nýju fyrirkomulagi en í fyrsta skipti í sögu þess mæta 32 lið til leiks.

Flestir fótboltaáhugamenn munu fylgjast spenntir með stórstjörnum eins og Kylian Mbappé, Erling Haaland og Lionel Messi keppa með sínum félagsliðum um að verða heimsmeistari.

Hins vegar hefur farið framhjá mörgum merkileg saga áhugamannaliðsins Auckland City sem mætir til leiks sem eina liðið frá Eyjuálfu.

Liðið hefur unnið Meistaradeild Eyjaálfu síðustu fjögur ár en liðið er samsett af leikmönnum sem meðal annars eru kennarar, fasteignasalar eða háskólanemendur.

Auckland City fær heldur betur krefjandi verkefni á morgun þegar liðið mætir þýsku meisturum Bayern München klukkan 16.00 að íslenskum tíma.

Félagið er í sterkum riðli, einnig með Benfica frá Portúgal og Boca Juniors frá Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert