Gríðarlegt áfall fyrir mótherja Íslands

Sif Atladóttir í baráttu við Ramonu Bachmann á EM 2017.
Sif Atladóttir í baráttu við Ramonu Bachmann á EM 2017. AFP

Ramona Bachmann, fremsta knattspyrnukona Sviss um árabil, verður ekki með svissneska landsliðinu á Evrópumótinu í heimalandi sínu þar sem það er í riðli með Íslandi.

Hin 34 ára gamla Ramona sleit krossband í hné á æfingu svissneska liðsins í Magglingen fyrir nokkrum dögum og er því úr leik fram á næsta vor.

Hún hefur verið í algjöru lykilhlutverki í svissneska landsliðinu í langan tíma og hefur skorað 60 mörk í 153 landsleikjum. 

Margir muna eftir framgöngu hennar gegn Íslandi á EM 2017 í Hollandi þar sem hún lagði upp fyrra markið og skoraði sigurmarkið í 2:1 sigri svissneska liðsins.

Ramona leikur með Houston Dash í bandarísku NWSL-atvinnudeildinni og áður með stórliðum á borð við París SG, Wolfsburg, Chelsea og Rosengård.

Hún fór einmitt til Houston Dash frá París SG með það að markmiði að vera í sem bestri leikæfingu fyrir EM í Sviss. Það fór þó ekki alveg eins og áætlað var, hún hefur misst mikið úr vegna meiðsla undanfarna mánuði og síðan eignaðist eiginkona hennar barn í maí þannig að Ramona fór snemma til Evrópu af þeim sökum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert