Evrópumeistararnir fóru illa með Madrídinga

Senny Mayulu og Vitinha skoruðu báðir fyrir PSG í kvöld.
Senny Mayulu og Vitinha skoruðu báðir fyrir PSG í kvöld. AFP/Stu Forster

Evrópu- og Frakklandsmeistarar Parísar SG unnu öruggan sigur á Atlético Madríd, 4:0, í B-riðli HM félagsliða í knattspyrnu karla í Pasadena í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum í kvöld.

Í riðlinum eru einnig Botafogo frá Brasilíu og Seattle Sounders frá Bandaríkjunum, sem mætast í nótt.

Í leik kvöldsins sýndi PSG hvers vegna það er besta lið Evrópu og réði lögum og lofum.

Fabián Ruiz braut ísinn á 19. mínútu og Vitinha tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé. Staðan var því 2:0 í hálfleik.

Tólf mínútum fyrir leikslok fékk Clément Lenglet tvö gul spjöld með stuttu millibili og þar með rautt.

Einum fleiri bætti PSG tveimur mörkum við. Hinn 19 ára gamli Senny Mayulu skoraði þremur mínútum fyrir leikslok og Lee Kang-In skoraði fjórða markið. Það gerði hann úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert