Þrjú rauð í dramatísku jafntefli

Nicolás Otamendi stangar boltann í netið.
Nicolás Otamendi stangar boltann í netið. AFP/DAN MULLAN

Boca Juniors frá Argentínu og Benfica frá Portúgal gerðu dramatískt jafntefli í B-riðli heimsmeistarakeppni félagsliða í knattspyrnu í Miami í Bandaríkjunum í nótt.

Bæði lið eru með eitt stig í riðlinum en Bayern er á toppnum með þrjú stig. Áhugamannaliðið Auckland City er án stiga á botninum.

Boca Juniors fór af stað með látum en liðið komst í 2:0-forystu eftir 27 mínútur. Miguel Merentiel kom liðinu yfir á 21. mínútu og aðeins sex mínútum síðar tvöfaldaði Rodrigo Battaglia forystu liðsins.

Ángel Di María minnkaði muninn fyrir Benfica með marki úr vítaspyrnu undir blálokin í fyrri hálfleik. Ander Herrera, sem fór meiddur af velli fyrir Boca Juniors, fékk rautt spjald á bekknum fyrir að mótmæla dómnum.

Benfica varð manni færri á 72. mínútu þegar varamaðurinn Andrea Belotti fékk að líta rauða spjaldið. Allt stefndi í sigur Boca Juniors þar til á 84. mínútu þegar Nicolás Otamendi jafnaði metin með hörkuskalla.

Nicolás Figal, varnarmaður Boca Juniors, fékk rautt spjald undir blálokin og urðu lokaniðurstöður 2:2-jafntefli.

Öruggur sigur Brasilíumanna

Í D-riðli vann brasilíska liðið Flamengo öruggan sigur á Espérance Tunis í Philadelphiu í Bandaríkjunum.

Flamengo er með þrjú stig, jafnmörg stig og Chelsea. Los Angeles FC og Espérance eru án stiga.

Mörk Flamengo skoruðu Giorgian De Arrascaeta og Luiz Araújo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert