Boca Juniors frá Argentínu og Benfica frá Portúgal gerðu dramatískt jafntefli í B-riðli heimsmeistarakeppni félagsliða í knattspyrnu í Miami í Bandaríkjunum í nótt.
Bæði lið eru með eitt stig í riðlinum en Bayern er á toppnum með þrjú stig. Áhugamannaliðið Auckland City er án stiga á botninum.
Boca Juniors fór af stað með látum en liðið komst í 2:0-forystu eftir 27 mínútur. Miguel Merentiel kom liðinu yfir á 21. mínútu og aðeins sex mínútum síðar tvöfaldaði Rodrigo Battaglia forystu liðsins.
Ángel Di María minnkaði muninn fyrir Benfica með marki úr vítaspyrnu undir blálokin í fyrri hálfleik. Ander Herrera, sem fór meiddur af velli fyrir Boca Juniors, fékk rautt spjald á bekknum fyrir að mótmæla dómnum.
Benfica varð manni færri á 72. mínútu þegar varamaðurinn Andrea Belotti fékk að líta rauða spjaldið. Allt stefndi í sigur Boca Juniors þar til á 84. mínútu þegar Nicolás Otamendi jafnaði metin með hörkuskalla.
Nicolás Figal, varnarmaður Boca Juniors, fékk rautt spjald undir blálokin og urðu lokaniðurstöður 2:2-jafntefli.
Í D-riðli vann brasilíska liðið Flamengo öruggan sigur á Espérance Tunis í Philadelphiu í Bandaríkjunum.
Flamengo er með þrjú stig, jafnmörg stig og Chelsea. Los Angeles FC og Espérance eru án stiga.
Mörk Flamengo skoruðu Giorgian De Arrascaeta og Luiz Araújo.