Jón Daði hættur hjá Burton og snýr heim

Jón Daði Böðvarsson í leik með Burton Albion.
Jón Daði Böðvarsson í leik með Burton Albion. Ljósmynd/@burtonalbionfc

Íslenski knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson mun ekki vera áfram hjá enska félaginu Burton Albion og er á leiðinni til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Jón Daði gekk til liðs við Burton í janúarglugganum en samningur hans við félagið rennur út í lok mánaðarins.

Jón Daði kom við sögu í 13 leikjum á seinni hluta tímabilsins, skorandi í þeim fimm mörk. Jón Daði á langan feril að baki í neðri deildum Englands en hann hefur spilað með Wolves, Reading, Millwall, Bolton, Wrexham og nú síðast Burton Albion.

Í bréfi til stuðningsmanna skrifar Jón Daði að hann sé á leiðinni heim til Íslands eftir 10 ár á Englandi og 13 ár úti í atvinnumennsku.

Jón Daði á að baki 64 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim fjögur mörk. Hann er með leikjahærri knattspyrnumönnum Íslands í deildakeppni og hefur spilað 435 deildaleiki heima og erlendis og skorað í þeim 75 mörk, en hann hóf ferilinn með Selfyssingum og fór þaðan í atvinnumennsku þar sem hann lék í Noregi og Þýskalandi áður en hann fór til Englands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert