Undarleg spurning Trumps vakti athygli

Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt John Elkann, framkvæmdastjóra hjá Ferrari, t.h., …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt John Elkann, framkvæmdastjóra hjá Ferrari, t.h., og Gianni Infantino forseta FIFA, t.v. Þeir halda á treyjum Juventus. AFP/Doug Mills

Donald Trump spurði leikmenn og starfsfólk undarlegrar spurningar í heimsókn knattspyrnuliðsins Juventus í Hvíta húsið í gær. 

Trump spurði leikmenn Juventus, sem taka þátt á HM félagsliða í Bandaríkjunum, hvort kona gæti komist í lið þeirra. Leikmennirnir svöruðu ekki spurningunni en brostu vandræðalega. 

Trump ítrekaði síðan spurningu sína og þá greip Damien Comolli framkvæmdastjóri inn í og sagði Juventus vera með gott kvennalið, enda Ítalíumeistari.

Trump spurði þá hvort leikmennirnir ættu þá ekki að spila með konunum en Comolli svaraði því ekki. Eftir það gafst forsetinn upp og sagði framkvæmdastjórann vera „mjög pólitískan.“

Trump spurði leikmennina út í þetta til að fá skoðun þeirra á trans fólki í íþróttum. Í febrúar á þessu ári skrifaði Trump undir lög sem meina trans konum frá þátttöku í kvennaíþróttum en þau mál hafa verið mikið í umræðunni undanfarið.  

Spurning Trumps var nokkuð misheppnuð og vildu liðsmenn Juventus lítið tjá sig um þessi mál, allavega á þennan hátt. Þessi uppákoma hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert