Chelsea tapaði á HM

Bruno Henrique fagnar marki sínu í kvöld.
Bruno Henrique fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Franck Fife

Chelsea mátti sætta sig við tap fyrir brasilíska liðinu Flamengo, 3:1, í annarri umferð D-riðils HM félagsliða í knattspyrnu karla í Fíladelfíu í Bandaríkjunum í kvöld.

Flamengo er á toppi riðilsins með sex stig og Chelsea er í öðru sæti með þrjú.

Pedro Neto kom Chelsea yfir eftir 13 mínútna leik þegar hann nýtti sér mistök varnarmanna Flamengo, brunaði einn í gegn og lagði boltann í netið úr vítateignum.

Staðan var 0:1 í hálfleik en eftir rúmlega klukkutíma leik jafnaði Bruno Henrique metin fyrir Flamengo. Hann skoraði á 62. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður sex mínútum fyrr.

Þremur mínútum síðar kom Danilo svo Flamengo yfir. Vont versnaði enn fyrir Chelsea þremur mínútum síðar því Nicolas Jackson fékk þá beint rautt spjald.

Brasilíska liðið nýtti sér liðsmuninn og innsiglaði sigurinn sjö mínútum fyrir leikslok þegar varamaðurinn Wallace Yan skoraði örskömmu eftir að hafa komið inn á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert