Tjáði sig um heimsóknina til Trumps: „Vil bara spila fótbolta“

Timothy Weah lengst til vinstri ásamt liðsfélögum sínum og Donald …
Timothy Weah lengst til vinstri ásamt liðsfélögum sínum og Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP/Brendan Smialowski

Bandaríkjamanninum Timothy Weah fannst heimsókn hans með knattspyrnuliðinu Juventus í Hvíta húsið undarleg. 

Juventus, sem tekur þátt á HM félagsliða í Bandaríkjunum, heimsótti Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í fyrradag og fór Trump um víðan völl með liðinu. Hann ræddi meðal annars um transfólk og átök Ísraels og Íran en leikmennirnir virtust hafa lítinn áhuga á að ræða þessi mál. 

Hefur lítinn áhuga á pólitík

Weah, sem er einn af tveimur Bandaríkjamönnunum í liðinu ásamt Weston McKennie, var spurður af fréttamönnum út í heimsóknina. 

„Að mæta í Hvíta húsið í fyrsta sinn er alltaf mikil upplifun og alveg dásamlegt. Ég er hins vegar ekki mikið að tjá mig um pólitík svo mér fannst umræðurnar ekki spennandi. 

Þetta var svolítið skrítið og kom mér á óvart. Þegar Trump fór að tala um pólitík og átök Ísraels og Íran hafði ég lítinn áhuga á að taka þátt í umræðunum. Ég vil bara spila fótbolta,“ sagði Weah. 

Timothy Weah er reyndar sonur knattspyrnugoðsagnarinnar George Weah, sem vann gullboltann sem leikmaður AC Milan og varð eftir ferilinn forseti Líberíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert