Dortmund mætti Mamelodi Sundowns frá Suður Afríku á heimsmeistaramóti félagsliða í knattspyrnu í Bandaríkjunum í dag og buðu liðin upp á markaveislu í leik sem endaði með sigri Dortmund, 4:3.
Mamelodi tók forystuna á 11. mínútu þegar Lucas Ribeiro komst í gegnum vörn Dormund og skoraði auðveldlega. Felix Nmecha jafnaði leikinn fimm mínútum síðar þegar hann nýtti sér slæm mistök Ronwen Williams í marki Mamelodi.
Serhou Guirassy kom Dortmund yfir á 34. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið. Jobe Bellingham, yngri bróðir Jude Bellingham, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Dortmund á 45. mínútu þegar hann skoraði með góðu skoti úr teignum.
Khuliso Mudau, leikmaður Mamelodi Sundowns, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 59. mínútu og Dortmund því komið með þriggja marka forystu, 4:1.
Leikmenn Mamelodi gáfust hinsvegar ekki upp og náðu að minnka muninn með mörkum frá Iqraam Rayners á 62. mínútu og Lebo Mothiba á 90. mínútu.
Lengra komst Mamelodi ekki og endaði leikurinn með sigri Dortmund, 4:3.
Eftir leikinn er Dortmund á toppi riðilsins með fjögur stig eftir tvo leiki. Mamelodi er í 2. sæti með þrjú stig. Fluminese er með eitt stig í þriðja sæti og Ulsan HD er á botninum án stiga, en þessi lið mætast einmitt í kvöld.