Heimsmeistaramótið í knattspyrnu verður haldið í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada sumarið 2026 og má búast við stórkostlegu knattspyrnumóti.
Skipuleggjendur mótsins eru hinsvegar farnir að hafa áhyggjur af veðurfari á meðan mótinu stendur eftir að hafa horft upp á að leikjum í Heimsmeistaramóti félagsliða, sem nú er í gangi í Bandaríkjunum, hefur verið frestað vegna veðurs.
Veðrið hefur haft áhrif á fjóra leiki á Heimsmeistaramóti félagsliða til þessa. Þrumur og eldingar hafa verið að valda því að stoppa hefur þurft leiki og mikil seinkun hefur átt sér stað.
Seinni hálfleikur í leik Benfica og Auckland City fór af stað tveimur tímum seinna en upphaflega var gert ráð fyrir vegna mikilla rigninga og eldinga í Orlando.
Leik Mamelodi Sundowns og Ulsan HD var frestað um klukkutíma af sömu ástæðum en hann var einnig spilaður í Orlando.
Palmeiras og Al Ahly mættust í New Jersey og þurfti að gera 40 mínútna hlé á seinni hálfleiknum vegna eldinga í nágrenni vallarins.
Þá var gert 90 mínútna hlé á seinni hálfleik í leik Salzburg og Pachuca sem var spilaður í Cincinnati.
Til að toppa þetta þá er búist við hitabylgju í Bandaríkjunum í næstu viku þar sem hitinn getur farið í 41 gráðu. Talið er að þetta muni hafa áhrif á tíu leiki sem spilaðir verða í næstu viku.
Skipuleggjendur HM 2026 eru að fylgjast vel með þróuninni og eru að reyna að hugsa lausnir svo að mótið verði hreinlega ekki hættulegt fyrir leikmenn og áhorfendur.
Margir leikir á Heimsmeistaramóti félagsliða eru spilaðir fyrir klukkan 17 á staðartíma vegna sjónvarpssamninga. Það þýðir að leikirnir eru á skikkanlegum tíma í sjónvarpi fyrir Evrópubúa sem horfa mikið á leikina.
FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, gaf frá sér yfirlýsingu þar sem segir að FIFA muni halda áfram að fylgjast með veðrinu og vinna í samstarfi við skipuleggjendur Heimsmeistaramóts félagsliða til að tryggja öryggi og að reynslan að spila á þessu móti verði ánægjuleg fyrir alla sem að mótinu koma.