Daniele Longo, blaðamaður hjá CalcioMercato, heldur því fram að umboðsmaður Alberts Guðmundssonar hafi boðið AC Milan að fá leikmanninn nú í sumarglugganum en ekkert hefur heyrst af því hvort Milanóbúar hafi áhuga á að kaupa Albert.
Fotbolti.net greindi fyrst frá.
Þetta yrði sögulegt því langafi Alberts og alnafni, fyrsti atvinnuknattspyrnumaður Íslands, lék með AC Milan á sínum tíma.
Albert hefur verið í láni hjá Fiorentina frá Genoa á síðasta tímabili en Fiorentina greiddi 8 milljónir evra fyrir að fá Albert á láni. Flórensarliðið á möguleika á að kaupa Albert fyrir 17 milljónir evra en talið er líklegra að Fiorentina vilji frekar framlengja lánssamning Alberts frekar en að kaupa hann.
Albert er eftirsóttur en þrjú lið hafa sett sig samband við Genoa og umboðsmann Alberts um að kaupa hann. Þessi lið eru Atalanta, Bologna og Roma.
Þannig að íslenski landsliðsmaðurinn virðist hafa úr nógu að velja og spurning hvar hann endar fyrir næsta tímabil.