Fékk rautt eftir sjö mínútur í sigri Real Madrid

Federico Valverde fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Federico Valverde fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Richard Pelham

Real Madrid vann sinn fyrsta sigur á HM félagsliða karla í fótbolta í kvöld þegar liðið mætti Pachuca frá Mexíkó í H-riðli keppninnar í Charlotte í Bandaríkjunum í kvöld.

Leiknum lauk með öruggum sigri Real Madrid, 3:1, en Raúl Asencio fékk að líta rauða spjaldið í liði Real Madrid strax á 7. mínútu.

Það kom ekki að sök því Jude Bellingham og Arda Güler skoruðu sitt markið hvor fyrir Real Madrid í fyrri hálfleik og staðan því 2:0 í hálfleik.

Federico Valverde bætti við þriðja marki Real Madrid á 70. mínútu áður en Elías Montiel minnkaði muninn fyrir Pachuca á 80. mínútu.

Real Madrid er með 4 stig í efsta sæti riðilsins eftir jafntefli gegn Al Hilal frá Sádi-Arabíu í fyrstu umferðinni en Pachuca  er í neðsta sætinu án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert