Xabi Alonso, knattspyrnustjóri Real Madríd, segir leikmann sinn Antonio Rüdiger hafa kvartað undan því að hafa verið beittur kynþáttaníði á meðan leik liðsins gegn Pachuca frá Mexíkó stóð á HM félagsliða í gærkvöldi.
Rüdiger sagði Argentínumanninn Gustavo Cabral, fyrirliða Pachuca, hafa beitt sig kynþáttaníði þegar kastaðist í kekki milli þeirra undir lok leiksins.
Cabral hefur hafnað því að hafa beitt Rüdiger níði og sagði við fréttamenn eftir leik að hann hafi einungis kallað Rüdiger heigul.
Er Alonso ræddi við fréttamenn sagðist hann telja að FIFA muni rannsaka málið og að Madrídingar trúi Rüdiger.