Þýskaland varð í gærkvöldi síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM U21-árs í knattspyrnu karla í Slóvakíu með því að vinna Ítalíu 3:2 eftir ótrúlegan framlengdan leik í átta liða úrslitum.
Þýskaland mætir Frakklandi í undanúrslitum á miðvikudag. England mætir Hollandi í hinum undanúrslitaleiknum, einnig á miðvikudag.
Í leiknum í gærkvöldi var markalaust í hálfleik en Luca Koleosho kom Ítölum yfir eftir tæplega hálftíma leik. Nick Woltemade jafnaði svo metin fyrir Þýskaland tíu mínútum síðar, á 68. mínútu.
Wilfried Gnonto fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt níu mínútum fyrir leikslok og einum manni fleiri kom Nelson Weiper Þjóðverjum í 2:1 þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Ekki nóg með það þá fékk Mattia Zanotti einnig sitt annað gula spjald og þar með rautt og Ítalir þar með orðnir tveimur mönnum færri. Níu Ítalir jöfnuðu hins vegar metin á sjöttu mínútu uppbótartíma.
Það gerði Giuseppe Ambrosino með glæsimarki beint úr aukaspyrnu. Tveimur færri virtust Ítalir ætla að halda út í framlengingu og knýja þannig fram vítaspyrnukeppni.
Merlin Rohl kramdi hins vegar ítölsk hjörtu þegar hann skoraði sigurmark Þjóðverja á 117. mínútu framlengingarinnar.