Ótrúleg jafntefli er Messi og félagar komust áfram

Lionel Messi svekktur eftir að Palmeiras jafnaði metin í nótt.
Lionel Messi svekktur eftir að Palmeiras jafnaði metin í nótt. AFP/Patrícia de Melo Moreira

Inter Miami og Palmeiras gerðu jafntefli, 2:2, og Porto og Al-Ahly sömuleiðis, 4:4, í magnaðri lokaumferð A-riðils HM félagsliða í knattspyrnu karla í Bandaríkjunum í nótt.

Jafnteflin þýða að Palmeiras vann riðilinn með því að vinna sér inn fimm stig og Inter Miami, með Lionel Messi í fararbroddi, hafnaði í öðru sæti með jafnmörg stig.

Í leik Inter Miami og Palmeiras komst bandaríska liðið í 2:0 með mörkum Tadeo Allende og gamla brýnisins Luis Suárez.

Brasilíska liðið kom hins vegar til baka með því að skora tvívegis á síðustu tíu mínútum leiksins, Paulinho og Mauricio skoruðu, og tryggði Palmeiras sér þannig sigur í riðlinum.

Þrenna dugði ekki til

Leikur Porto og Al-Ahly frá Egyptalandi var með nokkrum ólíkindum en egypska liðið komst fjórum sinnum yfir í leiknum en alltaf tókst því portúgalska að jafna metin.

Bæði lið eru úr leik. Porto fékk tvö stig og hafnaði í þriðja sæti og Al-Ahly fékk jafnmörg stig og hafnaði í neðsta sæti.

Rodrigo Mora, William Gomes, Samu Aghehowa og Pepe skoruðu mörk Porto í leiknum.

Wessam Abou Ali skoraði fyrstu þrennu fyrir Al-Ahly, fyrstu þrjú mörk liðsins, auk þess sem Mohamed Ben Romdhane komst á blað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert