Tilkynntu kaupin á Alberti Guðmundssyni

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er genginn til liðs við ítalska A-deildarfélagið Fiorentina.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Albert, sem er 28 ára gamall, lék með liðinu á láni frá Genoa á síðustu leiktíð.

Fiorentina var með forkaupsrétt á leikmanninum eftir að lánsdvölinni lauk og borgaði Fiorentina um 13 milljónir evra fyrir hann en félagið borgaði Genoa 8 milljónir evra síðasta sumar til þess að fá hann á láni.

Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði sex mörk og lagði upp önnur tvö í 24 leikjum í ítölsku A-deildinni á leiktíðinni.

Þá á hann að baki 41 A-landsleik þar sem hann hefur skorað 10 mörk en Fiorentina hafnaði í sjötta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert