Portúgalski knattspyrnumaðurinn Diogo Jota verður jarðsunginn í dag, tveimur dögum eftir að hann lést í bílslysi við bæinn Cernadilla í Zamora-héraði á Spáni, 28 ára að aldri.
Jota var samningsbundinn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og var á leið til Santander á Norður-Spáni til að taka ferju þaðan til Englands en læknar höfðu ráðlagt honum að fljúga ekki aftur til Englands þar sem hann var nýbúinn að gangast undir aðgerð.
Kistulagningin fór fram í gær þar sem fjöldi fyrrverandi og núverandi leikmanna Liverpool mættu ásamt liðsfélögum hans í portúgalska landsliðinu.
Kistulagningin fór fram fyrir luktum dyrum í Gondomar, úthverfi Porto, í Portúgal en kapellan í Gandomar var síðar opnuð þar sem almenningi gafst kostur á að kveðja knattspyrnumanninn.
Jota verður svo jarðsunginn í Gondomar í dag og hefst athöfnin klukkan 9 að staðartíma en Luís Filipe Montenegro, forsætisráðherra Portúgals, hefur boðað komu sína í jarðarförina.