Real í undanúrslit eftir ótrúlegar lokamínútur

Vinícius Júnior, Jude Bellingham og Trent Alexander-Arnold fagna marki Fran …
Vinícius Júnior, Jude Bellingham og Trent Alexander-Arnold fagna marki Fran García. AFP/FRANCOIS NEL

Real Madrid tryggði sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts félagsliða með 3:2-sigri gegn Dortmund í New Jersey í Bandaríkjunum í kvöld.

Real Madrid mætir Evrópumeisturum París SG í undanúrslitum næsta miðvikudag.

Gonzalo García kom Madrídingum yfir á 10. mínútu. Samlandi hans Fran García bætti við öðru marki Real aðeins tíu mínútum síðar.

Staðan var því 2:0 fyrir Real í hálfleik. 

 

Maximilian Beier minnkaði muninn fyrir Dortmund á annarri mínútu uppbótartímans. Skömmu síðar bætti Frakkinn Kylian Mbappé við þriðja marki Real. 

Rétt fyrir leikslok braut Dean Huijsen á Serhou Guirassy í vítateignum. Dortmund fékk víti og Huijsen fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið. 

Guirassy fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi. Mörkin urðu ekki fleiri í leiknum og Real vann því 3:2-sigur.

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert