Ísak Snær Þorvaldsson fór vel af stað með sínu nýja liði, Lyngby, í fyrstu umferð dönsku B-deildarinnar í knattspyrnu í dag.
Ísak er kominn til Lyngby í láni frá Rosenborg í Noregi og liðið vann Esbjerg á útivelli, 2:0, í fyrstu umferðinni í dag.
Ísak kom inn á sem varamaður á 63. mínútu og á 88. mínútu leiksins innsiglaði hann sigurinn fyrir Lyngby með því að skora seinna mark liðsins.
Lyngby fékk því líka óskabyrjun á tímabilinu en liðið féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor. Lyngby virtist ætla að vera án íslenskra leikmanna í fyrsta sinn í langan tíma en fékk síðan Ísak til sín á dögunum.
Breki Baldursson er meðal leikmanna Esbjerg en hann sat á varamannabekknum allan tímann í dag.
