Tottenham vann með skrautlegu sjálfsmarki

Lucas Bergvall átti sendinguna sem leiddi til sigurmarks Tottenham í …
Lucas Bergvall átti sendinguna sem leiddi til sigurmarks Tottenham í kvöld. AFP/Henry Nicholls

Tottenham Hotspur hafði betur gegn Villarreal, 1:0, á samnefndnum heimavelli sínum í Lundúnum þegar liðin áttust við í 1. umferð deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Sigurmarkið eftir aðeins fjögurra mínútna leik og það skoraði Luiz Júnior, markvörður Villarreal.

Lucas Bergvall gaf þá fyrir frá hægri, Júnior misreiknaði boltann herfilega og hugðist grípa hann en stýrði boltanum þess í stað í eigið net, sjálfsmark.

Tíu Madrídingar unnu

Real Madríd fékk Marseille í heimsókn á Santiago Bernabéu og vann 2:1.

Timothy Weah kom Marseille yfir á 22. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að Arda Güler hafði misst boltann á eigin vallarhelmingi.

Kylian Mbappé jafnaði svo metin með marki úr vítaspyrnu sjö mínútum síðar. Vítaspyrnan var dæmd eftir að Rodrygo var þrumaður niður innan vítateigs.

Dani Carvajal, fyrirliði Real Madríd, fékk beint rautt spjald eftir athugun VAR á 72. mínútu fyrir að skalla Geronimo Rulli, markvörð Marseille.

Einum færri tókst Madrídingum að komast yfir á 81. mínútu en þá skoraði Mbappé aftur úr vítaspyrnu. Að þessu sinni var hún dæmd á Facundo Medina sem handlék knöttinn innan vítateigs.

Rulli varði skot Mbappé í netið og var 2:1-sigur niðurstaðan.

Markaveisla í Tórínó

Juventus tók á móti Borussia Dortmund í Tórínó og gerðu liðin ótrúlegt jafntefli, 4:4, þar sem Juventus jafnaði metin á ögurstundu.

Þótt ótrúlegt megi virðast var markalaust að loknum fyrri hálfleik en Karim Adeyemi braut ísinn á 52. Mínútu þegar hann skoraði með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig.

Kenan Yildiz jafnaði metin fyrir Juventus með stórkostlegu skoti fyrir utan vítateig sem söng í samskeytunum á 63. mínútu. Felix Nmecha mátti ekki minni maður vera rúmri mínútu síðar og kom Dortmund í 1:2 með frábæru skoti úr D-boganum.

Dusan Vlahovic jafnaði metin í 2:2 áður en langt var um liðið, á 67. mínútu en Yan Couto kom Dortmund í 2-3 sjö mínútum síðar.

Dortmund fékk dæmda vítaspyrnu á 86. mínútu þegar Sehrou Guirassy skaut í hönd Lloyd Kelly. Ramy Bensebaini steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi.

Juventus var ekki á því að gefast upp. Vlahovic skoraði aftur á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar hann stýrði fyrirgjöf Pierra Kalulu frá hægri í stöngina og inn.

Vlahovic lagði upp svo upp laglegt skallamark fyrir Kelly á sjöttu mínútu uppbótartíma og sættust liðin því á jafnan hlut eftir lygilegan síðari hálfleik.

Ótrúleg endurkoma Aserana

Qarabag gerði frábæra ferð til Lissabon og vann glæsilegan endurkomusigur á Benfica, 3:2.

Benfica komst í 0:2 með mörkum frá Enzo Barrenechea og Vangelis Pavlidis.

Leandro Andrade og Camilo Duran skoruðu hins vegar fyrir gestina frá Aserbaídsjan áður en Oleksii Kashchuk bætti við þriðja markinu og fullkomnaði þar með endurkomuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert