Arsenal byrjar deildarkeppnina í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla með besta móti þar sem liðið gerði góða ferð til Spánar og vann Athletic Bilbao 2:0 í 1. umferð keppninnar í kvöld.
Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það varamennirnir Gabriel Martinelli og Leandro Trossard sem tryggðu Arsenal sterkan sigur.
Martinelli kom inn á sem varamaður á 71. mínútu og var svo búinn að brjóta ísinn aðeins 30 sekúndum síðar þegar Trossard sendi hann í gegn og Unai Simón í marki Bilbao réði ekki við skot Martinellis.
Hann launaði Trossard svo greiðann þremur mínútum fyrir leikslok þegar Martinelli átti góðan sprett og lagði boltann út á Trossard sem skoraði með skoti úr vítateignum sem Simón varði í netið.
Einum öðrum leik í 1. umferð keppninnar er lokið þar sem belgísku meistararnir í Royale Union St. Gilloise heimsóttu Hollandsmeistara PSV til Eindhoven. Lauk leiknum með fræknum 3:1-sigri Union St. Gilloise.
Var þetta fyrsti leikur belgíska liðsins í sögunni í deildar- eða riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Promise David og Anouar Ait El Hadj komu gestunum frá Belgíu í 2:0 í fyrri hálfleik áður en Kevin Mac Allister kom Union St. Gilloise í frábæra stöðu með þriðja markinu.
Ruben van Bommel skoraði sárabótamark fyrir PSV áður en yfir lauk en sögulegur sigur belgíska liðsins reyndist niðurstaðan.