Lionel Messi átti heldur betur stórleik er Inter Miami sigraði New England Revolution, 4:1, í 33. umferð efstu deildar Bandaríkjanna í knattspyrnu í Miami í gærkvöldi.
Inter Miami er nú í 3. sæti deildarinnar með 59 stig á meðan New England er í 11. sæti með 35 stig.
Messi, án efa einn besti knattspyrnumaður allra tíma, lagði upp þrjú mörk og var maður leiksins. Messi er markahæsti leikmaður deildarinnar með 24 mörk og sýndi svo sannarlega í gærkvöldi að hann getur gert margt annað en bara skorað.
Staðan í hálfleik var orðin 2:0 þar sem Tadeo Allende og Jordi Alba skoruðu mörk Miami og var Messi með báðar stoðsendingarnar.
Dor Turgeman minnkaði muninn á 59. mínútu fyrir New England en Allende skoraði mínútu seinna eftir stoðsendingu frá Messi. Þremur mínútum eftir þriðja mark Miami gerði Jordi Alba út af við leikinn er hann bætti við sínu örðu marki og gulltryggði 4:1 sigur Miami.
