Elías á bekkinn vegna agabrots

Elías Rafn Ólafsson í leik með íslenska landsliðinu.
Elías Rafn Ólafsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Ólafur Árdal

Elías Rafn Ólafsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, var settur á varamannabekkinn hjá félagsliði sínu Midtjylland í refsingarskyni um liðna helgi.

Elías Rafn missti af liðsfundi þar sem farið var yfir leikskipulag. Þegar slíkt gerist missir sá leikmaður sjálfkrafa sæti sitt í byrjunarliði Midtjylland samkvæmt agareglum liðsins.

„Það liggur ekki mikið að baki þessari ákvörðun annað en það að við erum með ákveðnar reglur sem strákarnir verða að fylgja. Elías hefur staðið sig frábærlega og er góður strákur en hann missti af fundi á hótelinu og þá spilar maður ekki.

Þetta vita leikmenn en þetta er ekkert stórmál. Þegar ég vakna á mánudag verða allir með hreinan skjöld en leikmennirnir vita að missi maður af svona fundi þá fer maður úr liðinu.

Það skiptir ekki máli hvaða leikmaður það er eða hvar við erum að spila. Svona eru reglurnar,“ sagði Mike Tullberg, knattspyrnustjóri Midtjylland, í samtali við danska miðilinn Bold.

Jonas Lössl tók sæti Elíasar Rafns í 1:1 jafntefli gegn FC Köbenhavn í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert