Heimir Hallgrímsson, þjálfari írska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var á fréttamannafundi spurður hvað honum þætti um að Rússland væri í banni frá alþjóðlegum keppnum en ekki Ísrael.
FIFA og UEFA settu rússnesk lands- og félagslið í keppnisbann stuttu eftir innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022. Undanfarið hefur borið á þrýstingi úr ýmsum áttum að samböndin banni einnig lið frá Ísrael vegna stríðsástandsins á Gasa.
„Hefði ég átt í erfiðleikum ef Ísrael hefði verið í riðlinum okkar og við hefðum þurft að mæta þeim? Það hefði ekki verið vandamál fyrir mig.
En augljóslega er það sem er að eiga sér stað þarna algjör harmleikur. Ég get ekki séð muninn sem er fólginn í því að FIFA og UEFA banni Rússland en ekki Ísrael. Ég hreinlega sé ekki muninn,“ sagði Heimir.
