Bjargaði lífi andstæðings í miðjum leik

Nikola Katic í leik með bosníska landsliðinu.
Nikola Katic í leik með bosníska landsliðinu. AFP/Elvis Barukcic

Bosníski knattspyrnumaðurinn Nikola Katic, miðvörður Schalke, hefur fengið mikið lof úr öllum áttum fyrir skjót viðbrögð sín eftir að Joel Grodowski, sóknarmaður Arminia Bielefeld, fékk þungt högg í leik liðanna í þýsku B-deildinni á sunnudag.

Grodowski lenti í samstuði við Loris Karius, markvörð Schalke sem lék áður með Liverpool, og lá óvígur eftir.

Katic sá strax hvernig í pottinn var búið og gekk fyrst úr skugga um hvort Grodowski hafi gleypt tunguna sína og kom honum svo í læsta hliðarlegu áður en læknateymi liðanna kom Grodowski til frekari aðstoðar.

Hann komst aftur til meðvitundar á vellinum, var svo fluttur á sjúkrahús og hefur samkvæmt tilkynningu frá Bielefeld hefur Grodowski það gott miðað við aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert