Þrátt fyrir að lið Úkraínu komi til Reykjavíkur með aðeins eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína og án nokkurra mikilvægra leikmanna er það staðráðið í að ná í úrslit á föstudagskvöldið og halda í von sína um að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í fótbolta.
Í kjölfar vonbrigðanna sem fylgdu byrjuninni í undankeppni HM – 0:2-tapi fyrir Frakklandi á „heimavelli“ í Wroclaw í Póllandi og 1:1-jafntefli gegn Aserbaísjan á útivelli – telja margir í Úkraínu að risið á leikmönnum gæti vart verið lægra vegna lýjandi stríðsins sem hefur verið í gangi í meira en þrjú og hálft ár.
„Maður getur ekki talað um uppstillingar og leikskipulag þegar drónar fljúga yfir landið,“ sagði úkraínskur vinur minn mér nýverið.
Þetta er rétt og skiljanlegt. Landsliðsmenn Úkraínu sem búa erlendis eru vitanlega einnig haldnir stöðugum áhyggjum af öryggi ættingja og ástvina heima við. Til dæmis í lok ágúst hæfði dróni fjölbýlishús í Kænugarði, sem Georgiy Sudakov bjó í með fjölskyldu sinni, og eyðilagði eða skemmdi fjölda íbúða, þeirra á meðal íbúð hans. Eiginkona hans, ungt barn og móðir hans voru á svæðinu þegar árásin var gerð. Þau voru örugg í sprengjubyrgi.
Þegar árásin var gerð var Sudakov sjálfur í Sviss með félagsliði sínu Shakhtar Donetsk fyrir leik í Sambandsdeildinni. Eftir það samdi hann við Benfica og kom svo til móts við landsliðið í Póllandi fyrir leikina í undankeppni HM í september.
Þrátt fyrir þær alvarlegu aðstæður sem eru uppi vegna stríðsins virðist sem allt sé enn við sama heygarðshornið þegar kemur að knattspyrnunni, alveg eins og tilfellið er hvar sem fæti er drepið niður í heiminum. Stuðningsmenn eru ekki ánægðir með frammistöðuna og úrslit og landsliðsþjálfarinn Sergiy Rebrov (51) sætir mikilli gagnrýni. Margir kalla jafnvel eftir því að hann segi af sér.
„Við klúðruðum EM, hlupum á okkur í Þjóðadeildinni, töpuðum stigum gegn Aserbaísjan í undankeppni HM 2026 … Liðið þjáist í hverjum einasta leik. Þetta er ekki íþrótt lengur; þetta er sjónvarpsþáttaröð með lélegum handritshöfundi. Rebrov finnur stöðugt afsakanir: Völlurinn, meiðsli, stjörnuspár, veðrið – hvað sem er. Hann er mun fremur þjálfari sem reynir að bjarga andliti sínu í stað þess að vera þjálfari sem sýnir leiðtogahæfni og tekur ábyrgð. Fólk er ekki heimskt, það finnur þetta,“ sagði í athugasemd á vefsíðunni UA-Football.
Þó að Rebrov geti reitt sig á stuðning fyrrverandi liðsfélaga síns og vinar Andriys Shevchenkos, sem er nú forseti Knattspyrnusambands Úkraínu (UAF), trúa því margir að næstu tveir leikir, gegn Íslandi og Aserbaísjan, gætu verið hans síðustu sem landsliðsþjálfari. Rebrov, sem er einnig í þeirri áhugaverðu stöðu að vera varaforseti UAF, er með samning sem rennur út í júní 2026.
Í miðjum vangaveltum um mögulega afsögn kom einnig fram orðrómur í grískum fjölmiðlum um að Panathinaikos vildi semja við hann.
Eftir jafnteflið við Aserbaísjan hafði Rebrov orð á því að „leikurinn gegn Íslandi skiptir öllu máli núna“, og vék sér ekki undan því að svara spurningum um fjandsamleg ummæli í sinn garð.
„Við eigum í stöðugu stríði, við þurfum að styðja hvert annað og styðja landsliðið okkar. Ég veit að ég sæti gagnrýni og að það er ráðist gegn mér eftir hvern einasta leik. Meira að segja eftir sigurinn gegn Belgíu var ég spurður: „Hvers vegna spiluðuð þið svona illa í fyrri hálfleik?“ Svona er þetta alltaf, því miður. Þess vegna vil ég ávarpa stuðningsmennina. Á þessari stundu styðjum við öll við úkraínska herinn, en landsliðið er einnig Úkraína. Það eru Úkraínumenn sem spila hér. Allir hérna leggja sig fyllilega fram; bæði ég og leikmennirnir. Ég myndi vilja að Úkraínumennirnir okkar styddu leikmennina. Við erum ekki búnir að tapa neinu ennþá. Það eru fjórir leikir eftir,“ sagði Rebrov eftir 1:1-jafnteflið í Bakú.
Í þunglamalegu andrúmsloftinu sem umvefur landsliðið mátti nýverið til tilbreytingar heyra bjartsýnni rödd, sem barst frá Darijo Srna íþróttastjóra Shakhtar.
„Ég tel úkraínska landsliðið búa yfir miklum möguleikum. Ég get meira að segja borið þá saman við möguleikana sem landslið Króatíu býr yfir í augnablikinu. Já, gagnrýni er möguleg en við skulum bíða og sjá. Einn leikur getur breytt öllu. Einn góður leikur gegn Íslandi, þrjú stig og allt andrúmsloftið í búningsklefanum og í fjölmiðlum breytist. Allt breytist, þeir öðlast sjálfstraust og fara alla leið. Ég hef trú á því að úkraínska liðið geti náð í úrslit,“ sagði fyrrverandi Shakhtar-stjarnan og landsliðsmaður Króatíu við úkraínska fjölmiðla.
Fyrir næstu leiki verður Úkraína án nokkurra mikilvægra leikmanna. Oleksandr Zinchenko (Nottingham Forest) og Roman Yaremchuk (Olympiacos) eru meiddir, Mykhailo Mudryk (Chelsea) er í banni frá knattspyrnu eftir að hafa fallið á lyfjaprófi í lok 2024; og Andriy Yarmolenko (Dynamo Kyiv), sem á 125 landsleiki og 46 mörk fyrir Úkraínu, var ekki valinn vegna slæms leikforms. Í gær heltist Oleksandr Zubkov (Trabzonspor) úr lestinni og óvissa er með þátttöku Yehors Yarmoliuks (Brentford) gegn Íslandi.
Eins og Arnar Gunnlaugsson og leikmenn hans vita pottþétt, og burtséð frá öllum vandamálum, verður Úkraína ekki á neinn hátt léttur andstæðingur. Þvert á móti; Úkraínumenn geta verið hættulegir og ófyrirsjáanlegir. Þeir sönnuðu það fyrr á árinu með 3:1-sigri á Belgíu í umspili Þjóðadeildarinnar og einnig gegn Frakklandi í síðasta mánuði þegar Úkraínumenn léku vel um tíma í síðari hálfleik og klúðruðu tveimur dauðafærum til þess að jafna metin. Einnig er vert að minnast á að Úkraína var ansi óheppin að detta úr leik í riðlakeppninni á EM á síðasta ári þegar liðið vann sér inn fjögur stig. Á hinn bóginn lítur lið Rebrovs oft út fyrir að vera óöruggt í vörninni og fremur meinlaust í sókninni.
Hvort andlitið Úkraína sýnir á föstudagskvöld á Laugardalsvelli kemur í ljós.
Mögulegt byrjunarlið (4-3-3): Trubin – Konoplya, Zabarnyi, Matviyenko, Mykolenko – Yarmolyuk, Kaliuzhnyi, Sudakov – Nazarenko, Dovbyk, Hutsuliyak
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
