Knattspyrnumaðurinn Memphis Depay, sóknarmaður Corinthians í Brasilíu og hollenska landsliðsins, gat ekki ferðast frá Brasilíu til Hollands á sunnudagskvöld vegna þess að vegabréfi hans var stolið.
Depay átti að koma til móts við hollenska landsliðið í gær þar sem liðið á leiki gegn Möltu og Finnlandi í undankeppni HM 2026 í vikunni.
Ekkert varð hins vegar af því þar sem Depay tilkynnti lögreglyfirvöldum í Sao Paulo að vegabréfi hans hafi verið stolið.
Í tilkynningu frá hollenska knattspyrnusambandinu kom fram að Depay væri að gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að skila sér til Hollands eins fljótt og auðið er.
Leikur Hollands gegn Möltu er á útivelli á fimmtudagskvöld og hefur sóknarmaðurinn því knappan tíma til þess að geta tekið þátt í undirbúningi liðsins fyrir leikinn.
Depay er markahæsti leikmaður í sögu hollenska landsliðsins með 52 mörk í 104 landsleikjum.
