„Algjör fásinna“

Adrien Rabiot miðjumaður AC Milan og franska landsliðsins.
Adrien Rabiot miðjumaður AC Milan og franska landsliðsins. AFP/Piero Cruciatti

Franski landsliðsmaðurinn í fótbolta Adrien Rabiot, leikmaður AC Milan á Ítalíu, segir fyrirætlanir ítalska knattspyrnusambandsins um að A-deildarleikur AC Milan við Como í febrúar í Ástralíu vera gjörsamlega bilaðar og kallar þær algjöra fásinnu.

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hefur samþykkt beiðnir knattspyrnusambanda Ítalíu og Spánar um að spila tvo deildarleiki fyrir utan landsteinana.

Ítölsku félögin AC Milan og Como vilja spila í Perth í Ástralíu í febrúar og spænsku félögin Barcelona og Villarreal vilja spila deildarleik sinn í Miami í Bandaríkjunum í desember. 

Í yfirlýsingu UEFA kemur fram að sambandið hafi með trega samþykkt beiðnirnar en tekur skýrt fram að það sé almennt mótfallið því að spila deildarleiki í öðrum löndum.

„Þetta er algjörlega bilað,“ sagði Rabiot aðspurður um málið í viðtali við franska miðilinn Le Figaro. Ég skil að deildin heiðri samninga sína til að tryggja ákveðinn sýnileika, en þetta er utan þess sem við getum stjórnað.

Það er algjörlega brjálæðislegt að ferðast svo marga kílómetra til að leika leik milli tveggja ítalskra liða í Ástralíu, en við verðum að aðlagast þessu. Það er mikið talað um heilsu leikmanna og of mikið leikjaálag, en mín skoðun er að þetta sé algjör fásinna,“ sagði Adrien Rabiot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert