„Ég gat ekki borðað í viku“

Gustav Isaksen í leik með Midtjylland fyrir nokkrum árum.
Gustav Isaksen í leik með Midtjylland fyrir nokkrum árum. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Gustav Isaksen, kantmaður Lazio á Ítalíu, þurfti í sumar að dvelja í einangrun í herbergi á æfingasvæði félagsins um tveggja vikna skeið vegna veikinda.

Isaksen smitaðist af hettusótt og voru forsvarsmenn Lazio dauðhræddir um að hann myndi smita liðsfélaga sína. Því þurfti hann að dvelja í einangrun í tvær vikur og lýsti Isaksen því að hann hafi ekki getað borðað neitt í heila viku.

„Frá einum degi til annars þurfti ég stöðugt að leggjast niður, í 14 daga samfleytt. Ég mátti svo ekki gera neitt í 14 daga eftir það. Það kom einhver með mat handa mér en fyrstu vikuna gat ég satt að segja ekki borðað neitt. Það var svolítið yfirþyrmandi,“ sagði Isaksen í samtali við danska miðilinn BT.

Hafnaði frekari einangrun

Kílóin hrundu af kantmanninum, sem var ekki mjög þungur fyrir, og sagði hann sumarið hafa verið það erfiðasta á ævi sinni.

Lazio vildi halda Isaksen í einangrun í 14 daga í viðbót eftir fyrstu 14 dagana en því hafnaði hann alfarið.

„Það var ekki að fara að gerast þannig að ég hringdi í móður mína, sem er hjúkrunarfræðingur. Þá var mér leyft að fara heim, gegn því skilyrði að hún yrði sú eina sem kæmist í tæri við mig,“ útskýrði Isaksen.

Hann hefur nú náð fyrri styrk og er hluti af danska landsliðshópnum sem mætir Hvíta-Rússlandi og Grikklandi í undankeppni HM 2026 á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert