19 af þeim 48 þjóðum sem verða með á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári hafa nú þegar tryggt sér sæti á mótinu.
Egyptar urðu nítjánda þjóðin til að tryggja sér sæti á mótinu með sigri á Djibútí í gærkvöldi, 3:0.
Þó vekur athygli að engin þjóð úr Evrópu hefur tryggt sér sæti á HM en undankeppnin þar er öðruvísi og úrslit hennar ráðast oftast þegar nær dregur mótinu.
Sex þjóðir frá Suður-Ameríku hafa tryggt sér sæti á HM og þar á meðal heimsmeistarar Argentínu. Hinar þjóðirnar eru Brasilía, Kólumbía, Ekvador, Úrúgvæ og Paragvæ.
Sjö þjóðir frá Asíu og Eyjaálfu hafa tryggt sér sæti á HM en það eru Íran, Japan, Jórdanía, Suður-Kórea, Úsbekistan, Ástralía og Nýja-Sjáland.
Þrjár þjóðir frá Afríku hafa tryggt sér sæti á HM en það eru Egyptaland, Marokkó og Túnis.
