Lögreglan í Ósló er við öllu búin vegna komu karlalandsliðs Ísraels í knattspyrnu til borgarinnar í gær. Fram undan er leikur Noregs og Ísraels í undankeppni HM 2026 á morgun.
Fyrir utan Radisson Blu Nydalen hótelið í Ósló var járngirðingum og hliðum komið fyrir áður en ísraelska teymið kom til landsins í gærkvöldi.
„Ég get ekki sagt mikið um öryggisráðstafanirnar. Við höfum komið ýmsu á kopp en viljum ekki gefa of mikið upp um hvað þær fela í sér. Við búumst ekki við mótmælum í kvöld en við erum viðbúnir því.
Það kom enginn til að mótmæla í gær en við gengum út frá því að einhver myndi gera það. Við settum girðingar hérna upp ef einhver skyldi vilja láta í sér heyra,“ sagði Anders Rönning, sem stýrir öryggisaðgerðum á svæðinu, í samtali við norska miðilinn Dagbladet.
Spurður hvort hann reikni með að girðingarnar verði áfram við hótelið sem ísraelska teymið dvelur á sagði Rönning:
„Það verða öryggisráðstafanir. Hvort þær verði hertar eða dregið úr þeim verðum við að meta út frá því hvernig hlutirnir þróast. Til að byrja með verða sýnilegar öryggissráðstafanir fyrir utan hótelið.“
Lögreglan í Ósló hafði áður tilkynnt að vegna aukinna öryggisráðstafana yrði ókunnugum ekki hleypt inn á hótelið, einungis gestum en engum tengdum aðilum þeirra.
Norska knattspyrnusambandið hefur þá tilkynnt að aðdáendasvæðið (e. fan zone) fyrir utan Ullevaal leikvanginn í Ósló verði lokað fyrir leikinn og að stuðningsmenn megi ekki bera leikmenn augum þegar þeir koma að leikvanginum eða yfirgefa hann, eins og hefð er fyrir.