Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem kemst á lista viðskiptamiðilsins Bloomberg yfir milljarðamæringa.
Ronaldo er núna á metinn á 1,4 milljarða bandaríkjadala, sem jafngildir 171 milljörðum íslenskra króna. Því er töluvert lengra síðan hann varð milljarðamæringur á íslenskan mælikvarða.
Portúgalinn er fyrsti knattspyrnumaðurinn í sögunni sem fer yfir einn milljarð bandaríkjadali þegar peningalegt virði hans er metið.
Ronaldo, sem er fertugur, hefur makað krókinn á einstaklega farsælum ferli með Real Madríd, Manchester United og Juventus og fær nú fúlgur fjár greiddar fyrir að spila með Al-Nassr í Sádi-Arabíu.
Einnig er hann eigandi afskaplega farsæls vörumerkis, CR7, er með ævilangan samning við íþróttavöruframleiðandann Nike og hefur í gegnum árin fengið greiddar himinháar fjárhæðir í gegnum hina ýmsu styrktar- og auglýsingasamninga.
