Sögulegt hjá Færeyjum

Færeyjar unnu stórbrotinn sigur í gærkvöldi.
Færeyjar unnu stórbrotinn sigur í gærkvöldi. Ljósmynd/Færeyska knattspyrnusambandið

Magnaður 4:0-sigur Færeyja á Svartfjallalandi í undankeppni HM 2026 í knattspyrnu karla í gærkvöldi var sögulegur fyrir margra hluta sakir.

Færeyjar eru með níu stig í þriðja sæti L-riðils, fjórum stigum á eftir Tékklandi og Króatíu, og á því prýðis möguleika á að komast á stórmót í fyrsta sinn eftir að hafa unnið tvo leiki í röð í riðlinum.

Sigurinn í gær var sá fyrsti sem Færeyjar vinna með fjórum mörkum í keppnisleik en það hafði liðið áður gert í vináttuleik gegn Liechtenstein á síðasta ári. Þá vann liðið einnig 4:0 og hefur sömuleiðis unnið Liechtenstein 5:1 í vináttuleik árið 2021.

Eru þetta þrír stærstu sigrarnir í sögu þjóðarinnar. Færeyjar unnu síðast tvo keppnisleiki í röð árið 2020, í D-deild Þjóðadeildarinnar.

28 ár eru síðan Færeyjar unnu tvo keppnisleiki í röð í undankeppni HM en þá vann liðið Möltu tvisvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert