Þjóðverjar skoruðu fjögur – Sviss með fullt hús stiga

Serge Gnabry fagnar ásamt liðsfélögum sínum í þýska landsliðinu í …
Serge Gnabry fagnar ásamt liðsfélögum sínum í þýska landsliðinu í kvöld. AFP/Daniel Roland

Þýskaland lék á als oddi þegar liðið lagði Lúxemborg að velli, 4:0, í A-riðli undankeppni HM karla í fótbolta í Sinsheim í Þýskalandi í kvöld.

Joshua Kimmich skoraði tvívegis fyrir Þjóðverja í leiknum og þeir David Raum og Serge Gnabry sitt markið hvor.

Í hinum leik riðilsins hafði Norður-Írland betur gegn Slóvakíu í Belfast, 2:0, þar sem Trai Hume skoraði fyrir Norður-Íra og þá varð Patrik Hrosovský fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Þýskaland, Norður-Írland og Slóvakía eru öll með 6 stig í efstu þremur sætum riðilsins en Lúxemborg er á botninum án stiga.

Sviss með fullt hús stiga

Í B-riðli undankeppninnar vann Sviss 2:0-sigur gegn Svíþjóð í Solna þar sem Granit Xhaka og Johan Manzambi skoruðu mörk Sviss.

Í hinum leik riðilsins gerðu Kósovó og Slóvenía markalaust jafntefli í Pristiníu en Sviss er með 9 stig eða fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins, Kósovó kemur þar á eftir með 4 stig, Slóvenía er í þriðja sætinu með 2 stig og Svíþjóð rekur lestina með eitt stig.

Norður-Makedónía á toppnum

Belgar gerðu óvænt jafntefli við Norður-Makedóníu í J-riðlinum í Gent, 0:0, en í hinum leik riðilsins vann Kasakstan öruggan sigur gegn Liechtenstein, 4:0, í Astana. 

Galymzhan Kenzhebek skoraði tvívegis fyrir Kasakstan og þeir Alibek Kasym og Bakhtiyar Zaynutdinov sitt markið hvor.

Norður-Makedónía er með 12 stig í efsta sætinu, Belgía í öðru sætinu með 11 stig, Wales með 10 stig, Kasakstan með 6 stig og Liechtenstein er án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka