Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í karlalandsliði Írlands í fótbolta töpuðu naumlega 1:0 gegn Portúgal í F-riðli undankeppni HM 2026 í kvöld en leiknum er nýlokið.
Ruben Neves skoraði sigurmark Portúgala í uppbótartíma. Cristiano Ronaldo misnotaði vítaspyrnu á 75. mínútu en Caoimhin Kelleher markvörður Írlands varði spyrnuna. Kelleher sem er markvörður Brentford og fyrrverandi markvörður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni er þekktur vítabani.
Staða Heimis sem landsliðsþjálfara hefur verið í umræðunni að undanförnu en næsti leikur Íra er heimaleikur gegn Armeníu á þriðjudag.
Portúgalar eru með 9 stig, fullt hús stiga á toppi riðilsins eftir þrjá leiki, en portúgalska liðið hefur á að skipa einu besta landsliði heims og er í 5. sæti á styrkleikalista FIFA.
Ungverjar sem sigruðu Armeníu 2:0 fyrr í dag eru með 4 stig í öðru sæti og Armenar í þriðja sæti með 3 stig.
Írar eru í neðsta sæti með 1 stig eftir þrjá leiki en Írar gerðu 2:2 jafntefli gegn Ungverjalandi í fyrsta leik sínum á heimavelli og töpuðu 2:1 á útivelli gegn Armeníu í annari umferð.
