Norski framherjinn Erling Braut Haaland, leikmaður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, heldur áfram að raða inn mörkum. Í dag skoraði hann þrennu í 5:0-sigri Noregs á Ísrael í undankeppni HM 2026.
Haaland brenndi reyndar af vítaspyrnu í upphafi leiksins þegar Daniel Peretz varði frá honum. Ísraelsmenn skoruðu tvö sjálfsmörk í leiknum, það fyrra skoraði Anan Khalaili á 18. mínútu og Idan Nachmias á 28. mínútu. Aðeins mínútu fyrir seinna sjálfsmarkið komst Haaland á blað og kom Noregi í 2:0 forystu.
Hann bætti síðan við tveimur mörkum í síðari hálfleik á 63. og 72. mínútu.
Norðmenn eru á góðri leið með að tryggja sig inn á sitt fyrsta heimsmeistaramót í tæplega 30 ár en Norðmenn komust síðast á lokamót HM árið 1998. Þeir eru með fullt hús stiga, 18 stig eftir sex leiki og er markatala þeirra frábær eða 26 mörk í plús. Ítalir mæta Eistlandi á útivelli í kvöld en Ítalir eru í öðru sæti I-riðils með 9 stig eftir fjóra leiki.
