Dagur Dan Þórhallsson skoraði mark Orlando City í tapi fyrir Vancouver Whitecaps, 2:1, í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í nótt þegar liðin mættust á heimavelli Orlando á Flórída.
Orlando City er í sjöunda sæti Austurdeildarinnar með 53 stig þegar ein umferð er eftir í deildakeppninni. Sjö efstu liðin fara beint í úrslitakeppnina en liðin í áttunda og níunda sæti fara í umspil. Chicago Fire og Columbus Crew eru einu og tveimur stigum á eftir Orlando fyrir lokaumferðina og liðin þrjú berjast því um eitt öruggt sæti í úrslitakeppninni.
Dagur skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu og var Orlando með forystuna þar til stutt var eftir af leiknum en á 81. mínútu jafnaði Nelson Pierre metin fyrir Vancouver.
Það var síðan sjálfur Thomas Müller sem skoraði sigurmark kanadíska liðsins undir blálok leiksins, 2:1.
Þetta var þriðja mark Dags á tímabilinu en hann hefur leikið 30 af 33 leikjum Orlando í deildinni í ár.