Útlit er fyrir að San Marínó geti hagnast á því að tapa með miklum mun gegn Rúmeníu í síðasta leik sínum í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu.
Flest bendir til þess að ef Rúmenía nær öðru sæti í H-riðli undankeppninnar og kemst þar með í umspil, komi það í hlut San Marínó að fara í umspil um sæti á HM.
San Marínó vann sinn riðil í D-deild Þjóðadeildarinnar. Aukasætin í umspili Evrópu fyrir HM 2026 sem fram fer í mars á næsta ári falla í skaut þjóðum sem hafa unnið sína riðla í Þjóðadeildinni og þess vegna á smáþjóðin möguleika á sæti þar.
En áður en að þessu kemur leika Bosnía og Rúmenía, liðin í öðru og þriðja sæti H-riðils, og vinni Bosnía leikinn eru Rúmenar úr leik áður en þeir mæta San Marínó.
Ef Rúmenar ná í stig í Bosníu 15. nóvember gætu þeir náð öðru sætinu í riðlinum með sigri á San Marínó á heimavelli 18. nóvember, og þar gæti hvert mark skipt máli.
Ef Rúmenar enda hins vegar í þriðja sæti riðilsins fara þeir í umspil sem ein af þjóðunum sem vann sinn riðil í Þjóðadeildinni og þá kemst San Marínó ekki þangað.