Gerrard tekur ekki við Rangers

Steven Gerrard.
Steven Gerrard. AFP/Adrian Dennis

Steven Gerrard mun ekki snúa aftur sem þjálfari Rangers í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta en hann sleit viðræðum sínum við skoska félagið samkvæmt fréttum Sky Sports News.

Rangers átti viðræður við Gerrard á fimmtudag og föstudag. Gerrard taldi þó að tímasetningin væri ekki alveg rétt og staðfesti að hann hefði dregið sig út úr viðræðunum. 

Russel Martin var rekinn sem stjóri Rangers eftir aðeins 123 daga í starfi. Martin náði aðeins að vinna fimm leiki af sautján. Rangers er aðeins með einn sigur í fyrstu sjö deildarleikjum sínum sem er jöfnun á  verstu byrjun liðsins í sögunni 47 ár aftur í tímann eða til tímabilsins 1978-1979.

Gengi skoska liðsins í Evrópu hefur verið engu skárra. Rangers tapaði samanlagt 9:1 fyrir belgíska liðinu Club Brugge í Meistaradeildinni og hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í Evrópudeildinni, annars vegar fyrir öðru belgísku liði Genk á heimavelli og austurríska liðinu Sturm Graz á útivelli.

Gerrard stýrði Rangers árin 2018-2021 með góðum árangri. Tímabilið 2020-2021 fór liðið í gegnum leiktíðina án taps og endaði með 102 stig í deildinni, ásamt því að vera efst í sínum riðli í Evrópudeildinni, þar sem það féll að lokum út fyrir Slavia Prague í 16 liða úrslitum.

Gerrard tók við Aston Villa í nóvember 2021. Tæplega ári síðar fékk Gerrard að taka pokann sinn eftir slakt gengi í upphafi leiktíðarinnar. Gerrard tók við sádíarabíska félaginu Al-Ettifag sumarið 2023 en hætti í byrjun árs 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert